154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[10:13]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin því að auðvitað skiptir þetta máli, hver hagvöxturinn er, hver framlegðin er, hvernig myndin lítur út hvað varðar viðskiptahallann, en við erum að byrja hér í 1. umræðu að horfa á myndina eins og hún er stór og eins og við ættum að hefja leika á.

Hæstv. fjármálaráðherra talaði líka um það að hér væri ekki endalaust til og ég er því alveg sammála og hef áhyggjur af því hvort aðhaldið sé nóg og þá ætla ég að setja það í samhengi við kostnað ríkisins af vöxtum sínum því að auðvitað er ekki hægt að ræða skuldir án þess að ræða kostnaðinn af þeim. Þar myndi ég aftur vísa í Morgunblaðið sem talar um að ríkissjóður sé að þessu leyti í svipaðri stöðu og heimilin; það eru ekki bara skuldirnar sem telja, það er kostnaðurinn af þeim, vextirnir og vaxtagjöldin eru þau sem þau eru.

En varðandi skatta þá hef ég áhyggjur af millistéttinni og að hún sé að gleymast í þessu fjárlagafrumvarpi og hafi reyndar gleymst á vakt þessarar ríkisstjórnar. Það er auðvitað þannig að Íslendingar greiða háar fjárhæðir í skatta og lífeyri og þar erum við aftur í samanburði við OECD mjög há, þegar við skoðum t.d. tölur frá 2021 — 45% af landsframleiðslu samkvæmt gögnum frá OECD skatttekjur að viðbættu framlagi í lífeyrissjóði. Í þeim samanburði eru það bara Danir sem eru hærri.

Ég veit að hæstv. fjármálaráðherra leggur mikið upp úr því að segja söguna af því að honum sé umhugað um það að hækka skatta ekki úr hömlu. Hvernig líst honum á þann samanburð þegar við horfum til þess að launafólk á Íslandi, millitekjufólk, barnafjölskyldur, er að taka á sig kostnaðarverðbólgu, vaxtahækkanir og búa við það skattstig sem þeir gera á Íslandi í dag?